Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari ökumanna í Formúlu 1 þurfti að aflýsa öllum fjölmiðlaviðburðum sínum fyrir keppnishelgi mótaraðarinnar í Sádi-Arabíu um komandi helgi. Meistarinn hefur verið að glíma við magapest.
Sökum þessa mætir hann ekki til Sádi-Arabíu fyrr en á morgun en það er þá sem fyrstu æfingar fyrir kappakstur helgarinnar hefjast.
„Mér líður vel þessa stundina eftir að hafa þurft að glíma við magakveisu undanfarna daga,“ skrifar Verstappen í færslu sem birtist á samfélagsmiðlum. „Þar af leiðandi þurfti ég að fresta flugi mínu til Sádi-Arabíu um dag og verð því ekki mættur á brautarsvæðið fyrr en á föstudag.“
Veikindin munu því að öllum líkindum ekki hafa áhrif á þátttöku heimsmeistarans um helgina. Verstappen fékk fljúgandi start á tímabilinu í fyrstu keppni þess í Barein. Verstappen bar höfuð og herðar yfir andstæðinga sína og endaði í 1. sæti.
En ef svo ólíklega vill til að veikindin taki sig upp aftur hjá Hollendingnum fljúgandi er þó enginn aukvissi sem myndi koma inn í hans stað, Daniel Ricciardo er varaökumaður Red Bull Racing en sá hefur yfir að skipa löngum ferli í Formúlu 1 og þekkir vel nýjustu kynslóð Formúlu 1 bíla.
Feeling fine again, after not being fit for a few days because of a stomach bug. Therefore, I unfortunately had to postpone my flight for a day, so I won't be on the track until Friday. See you in Jeddah!
— Max Verstappen (@Max33Verstappen) March 16, 2023