Ótthar Edvardsson, framkvæmdarstjóri Þróttar í Reykjavík, vakti athygli á heimaverkefni sem barnið hans átti að gera en það er í áttunda bekk. Barnið hafði fengið verkefnið Málið í mark, fallorð og þar átti að skrifa setningar upp aftur og breyta lausa greininum í viðskeyttan greini.

Sjötta dæmið var heldur undarlega orðað en þar átti nemandinn að breyta setningunni; Það var hinum heimska dómara að kenna hvernig leikurinn fór.

Töluverð umræða hefur verið um dómara að undanförnu, sérstaklega í fótbolta, en hand- og körfuboltinn voru að fara af stað, og eru ekki allir á eitt sáttir. FH-ingar voru reiðir eftir leikinn við Val og fannst þeim snuðaðir um vítaspyrnu. Skagamenn fengu nýverið tug þúsunda sekt eftir að fyrirliði liðsins kallaði dómara Heimskan Rassgatsson. KR-ingar eru enn í sárum eftir olnbogaskot markvarðar liðsins í gær og svona mætti lengi telja.

Starf dómara er og verður erfitt en yfirleitt hefur verið reynt að fræða fjöldann. Það verður jú enginn leikur án dómara eins ogKSÍ sagði árið 2017. Það að Menntastofnun láti nemendur sína kalla dómara heimska sýnir kannski hvað er langt í land.

Þegar stofnunin var krafin svara var Fréttablaðinu bent á að senda tölvupóst. Það væru margir hjá stofnuninni að vinna heima og sú sem svaraði í símann hafði enga hugmynd um hver gæti svarað fyrir þennan gjörning.

Stofnunin hefur þó tekið heimska dómarann út á vefnum sínum og sett hávaxinn í staðinn. Þannig nú er ekki lengur heimskum dómara um að kenna hvernig leikurinn fór heldur er sá heimski orðinn stór og hávaxinn.