Ferðaskrifstofan Heimsferðir bjóða upp á hópferð að sjá næsta leik Strákanna okkar í handboltalandsliðinu gegn Dönum annað kvöld.

Flogið er út á leikdegi með leiguflugi og er innifalin rútuferð á leikinn beint eftir lendingu. Leikurinn hefst tveimur og hálfum tíma eftir áætlaða lendingu.

Sólarhringi síðar heldur hópurinn heim á leið og fá Íslendingar því hálfan dag í höfuðborg Ungverjalands.

Verðið fyrir þennan pakka er tæplega hundrað þúsund krónur. Innifalið er gisting, flug og rútuferðir á leikinn og aftur á flugvöllinn.

Um fimm hundruð manns voru á leikjum Íslands í riðlakeppninni en Sérsveitin, stuðningsmannsveit landsliðsins, á von á liðsstyrk fyrir leikinn gegn Dönum á morgun.