Sænsku kringlukastararnir Daniel Ståhl og Simon Pettersson sem unnu til gull- og silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í fyrra verða meðal þátttakenda á Selfoss Classic, boðsmóti í frjálsum íþróttum sem fer fram á Íslandi síðar í mánuðinum.

Daniel og Simon æfa undir handleiðslu Vésteins Hafsteinssonar, fyrrum Íslandsmethafa í kringlukasti.

Í tilkynningu frá frjálsíþróttasambandinu kemur fram að Vésteinn muni halda fyrirlestur um afreksþjálfun og að það verði opin æfing með Ståhl og Pettersson þar sem fólk getur séð hvernig þeir æfa og spurt spurninga.

Ståhl er ríkjandi Heims- og Ólympíumeistari í greininni ásamt því að vinna til silfurverðlauna á síðasta Evrópumóti sem var haldið árið 2018.