Eftir dapurt gengi fyrir landsleikjahlé hefur Valur nú unnið tvo leiki í röð í Bestu deild karla. Sæti Heimis Guðjónssonar, þjálfara Vals, var sagt heitt fyrir sigurleikinn gegn Breiðabliki í þarsíðustu umferð. Nafni hans og fyrrum landsliðsþjálfari, Heimir Hallgrímsson, var til að mynda orðaður við starfið.
Þessi sigursæli þjálfari Vals segist hafa verið meðvitaður um umræðuna en lét hana þó ekki hafa of mikil áhrif á sig. „Auðvitað les ég fréttir og annað. Það er fullt af fréttum sem er hent fram sem eiga ekki við rök að styðjast. Þá verður þú bara að ákveða hvað þú vilt lesa og hverju þú vilt trúa,“ sagði Heimir við Fréttablaðið.
Heimir nýtti landsleikjahléið á dögunum vel á æfingasvæðinu með það að markmiði að bæta gengi liðsins. „Við vorum auðvitað óánægðir með leikina áður en landsleikjahléið byrjaði en við nýttum það vel, æfðum vel og vorum staðráðnir í að snúa þessu við. Nú eru komnir tveir sigurleikir og við erum ánægðir með það.“
Hann er ánægður með karakterinn sem leikmenn hafa sýnt. „Það reynir á menn þegar á móti blæs. Við höfum sýnt það í mörgum leikjum að það er sterkur karakter í þessu liði. Við höfum komið til baka og sýnt karakter.“
Nú tekur við hlé hjá Val aftur. Næsti leikur liðsins er gegn KA þann fjórða júlí. „Nú fáum við aftur pásu í tvær vikur og verðum að nýta hana vel eins og við gerðum síðast, vera duglegir á æfingasvæðinu og vera klárir fyrir norðan á móti KA eftir tvær vikur,“ sagði Heimir.