Gestir þáttarins voru þeir Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV og Hörður Snævar Jónsson, ritstjóri 433.is.

Heimir hefur verið án félags eftir að hann hætti þjálfun katarska liðsins Al-Arabi um síðasta sumar. Aðspurður að því hvort Heimir þyrfti ekki að fara koma sér aftur inn í leikinn sagði Einar Örn, íþróttafréttamaður RÚV, svo vera.

,,Klárlega, þetta er maður sem við viljum hafa í fótboltanum og þá helst að gera það sem hann er bestur í úti á velli."

Heimir hefur verið orðaður við ýmis störf undanfarna mánuði og í raun bara fljótlega eftir að hann yfirgaf Al-Arabi. Viðræður hans við Mjallby runnu út í sandinn á dögunum en Heimir hefur einnig verið orðaður við formannsstólinn hjá KSÍ en Einar Örn sér það ekki gerast.

,,Ég veit ekki hvort hann sé að renna hýru auga til þessa formannsstóls. Ég hugsa nú að hann langi meira að vera í þjálfuninni," sagði Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV.

Nóg af atvinnulausum þjálfurum í boði

Hörður Snævar, blaðamaður og ritjstjóri, tekur í svipaðan streng og Einar um að Heimir þurfi að koma sér aftur inn í leikinn. ,, Því það er nóg af atvinnulausum þjálfurum í boði, hann þarf bara að halda sér gildandi. Ég veit til að mynda að hann fór í viðræður við Rostov í Rússlandi um daginn en það fór ekki alla leið. Svo kemur þetta Mjallby dæmi upp sem honum þótti ekki spennandi."

Hörður telur Heimi vera meðvitaðan um stöðuna sem upp er komin. ,,Ég held að hann sé meðvitaður um að hann þarf að komast aftur inn í leikinn sem allra allra fyrst. Það er komið hálft ár núna frá því að hann var í starfi og það má bara ekki dragast í eitt eða tvö ár.

Fennir fljótt yfir

Heimir var síðast þjálfari katarska liðsins Al-Arabi en Benedikt Bóas, umsjónarmaður Íþróttavikunnar, veltir því fyrir sér hversu lengi sú staðreynd lifir. ,,Það eru ekkert allir að fylgjast með katarska boltanum þó við gerðum það mikið í tengslum við Aron Einar og Heimi. Heimurinn er kannski ekki hugsa um það hvað Heimir Hallgríms sé að gera í Katar."

Einar Örn, íþróttafréttamaður RÚV, tók undir þau orð Benedikts. ,,Heimurinn er rosa fljótur að gleyma. Það er rosa fljótt að fenna yfir þá staðreynd að Heimir hafi verið með íslenska liðið á bestu árum liðsins. Þetta er rosa fljótt að gleymast og nafnið að fara úr umræðunni ef menn halda sér ekki í umræðunni og inn á vellinum.