Michael Ricketts, formaður knattspyrnusambands Jamaíka, segir að verðandi þjálfari liðsins sé búinn að kynna sér knattspyrnuhreyfingu landsins vel og að hann komi með tvo þjálfara með sér.

Þetta kemur fram í viðtali Ricketts við Observer en Ricketts vill ekki nefna hvaða þjálfari sé að taka við liðinu. Blaðið segir að Heimir verði kynntur á föstudag og að hann sé kominn til Jamaíka.

„Þjálfarinn tekur með sér markmannsþjálfara og aðstoðarmann. Það er það eina sem hann fór fram á. Hann er búinn að kynna sér fótbolta í Jamaíka og landsliðsmennina og þekkir því vel til þeirra allra.“

Í viðtalinu segist Rickets vera spenntur fyrir komandi tímum og vongóður um að ná jafnvel í úrslit í fyrsta leik liðsins undir stjórn Heimis, gegn Argentínu síðar í þessum mánuði.