Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu skoraði fyrra mark Al Arabi þegar liðið lagði Al Markhiya að velli með tveimur mörkum gegn engu í undanúrslitum katörsku bikarkeppninnar, Emir Cup, í dag.

Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 1994 sem Al Arabi kemst í úrslitaleik Emir-bikarkeppninnar en liðið hefur unnið þessa keppni átta sinnum, síðast árið 1993. Síðasti titill félagsins kom í hús árið 1997.

Heimir Hallgrímsson hefur stýrt Al Arabi síðan árið 2018 en undir lok síðasta árs framlengdi hann samning sinn við félagið til loka keppnistímabilsins á næsta ári. Freyr Alexandersson var svo verið ráðinn aðstoðarmaður Heimis hjá liðinu.

Heimir á nú möguleika á að landa sínum fyrsta titli í stjórnartíð sinni þegar Al Arabi mætir annað hvort Al Duhail eða Al Sadd í úrslitaleik keppninnar.

Heimir Hallgrímsson er hér ásamt Bjarki Má Ólafssyni, aðstoðarmanni sínum.
Mynd/Al Arabi