Heimir Guðjónsson var látinn fara frá Val í byrjun vikunnar eftir slæmt gengi á leiktíðinni. Valur er í fimmta sæti deildarinnar með tuttugu stig, fjórtán stigum á eftir toppliði Breiðabliks. Valur er með ansi vel mannað lið og árangurinn því ekki ásættanlegur.

„Í sjálfu sér kom þessi ákvörðun ekkert á óvart, miðað við væntingarnar til liðsins þá var þetta ekki nógu gott. Liðið var í fimmta sæti og það voru gerðar kröfur á meiri eftir þetta margar umferðir. Þetta kom því ekki á óvart,“ segirHeimir Guðjónsson fyrrum þjálfari Vals í samtali við 433.is í dag.

Heimir hafði verið við stjórnvölinn hjá Val síðan 2019 en á sínu fyrsta tímabili, 2020, vann hann Íslandsmeistaratitilinn með liðinu. Nokkuð var um breytingar á hópi Vals fyrir þessa leiktíð. „Það er alltaf viðbúið að þegar farið er í breytingar á leikmannahóp að það geti tekið tíma að búa til lið. Það breytir því samt ekki að fimmta sætið í þessu starfi er ekki ásættanlegt og í fótboltanum er tíminn ekki neinn sérstakur vinur manns.“

Heimir horfir stoltur til baka á tíma sinn hjá Val. „Ég kom haustið 2019 og við vinnum titil á fyrsta ári, við spiluðum geggjaðan fótbolta og skoruðum 50 mörk í 18 leikum. Við náðum ekki að halda því áfram, það er eitt að ná árangri en það er allt annað að halda í velgengi. Við náðum ekki að gera það.“

„Ég var í tvö og hálft ár hjá Val og vann einn Íslandsmeistaratitil. Frá 1987 hefur Valur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari og ég á einn af þeim. Ég geng stoltur frá þessu verkefni, ég lagði mig allan í það.“

Nánar er rætt við Heimi á 433.is.