Heimir Guðjónsson stýrði liði sínu, HB, til sigurs þegar liðið mætti 07 Vestur Sørvági í áttundu umferð færeysku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla í Þórshöfn í gær. 

Þetta var sjötti sigur HB í röð, en þar af eru fimm sigrar í deildarleikjum. Þessi sigurhrina HB hefur fleytt liðinu upp að hlið KÍ, en liðin tróna jöfn að stigum á toppi deildarinnar. 

Sím­un Samu­el­sen sem lék á árum áður með Keflavík skoraði eitt marka HB í leiknum. Brynjar Hlöðversson sem gekk til liðs við HB frá Leikni Reykjavík fyrr á þessu ári lék allan leikinn inni á miðsvæðinu hjá liðinu.