Brynjar Hlöðversson, fyrirliði Leiknis R., hefur samið við HB frá Færeyjum. Frá þessu er greint á heimasíðu Leiknis.

Hjá HB hittir Brynjar fyrir Heimi Guðjónsson sem er nýtekinn við liðinu. Brynjar skrifaði undir níu mánaða samning við HB sem endaði í 5. sæti færeysku úrvalsdeildarinnar í fyrra.

Brynjar er uppalinn Leiknismaður og hefur leikið með félaginu allan sinn feril. Þessi mikli baráttujaxl hefur spilað 176 leiki fyrir Leikni og skorað sjö mörk.

Á síðasta tímabili lék Brynjar 20 leiki með Leikni í Inkasso-deildinni auk fjögurra leikja í Borgunarbikarnum þar sem Breiðhyltingar komust í undanúrslit.

Tímabilið í Færeyjum hefst um miðjan mars. Fyrsti leikur HB er gegn KÍ á heimavelli.