Knattspyrnukonan og fyrirliði íslenska landsliðsins, Sara Björk Gunnarsdóttir, hefur gert samkomulag við íþróttamerkið PUMA um að þeir muni fylgja henni eftir í gegnum meðgöngu, fæðingu og hvernig hún mun þjálfa sig aftur upp sem atvinnukonu í fótbolta eftir fæðingu.

Verkefnið nær hámarki í upphafi næsta árs þegar heimildarmynd um ferli Söru Bjarkar verður frumsýnd.

Atvinnuíþróttakonur mæta áskorunum og óvissu þegar kemur að ákvörðunum um barneignir. Þær þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og sumar fórna jafnvel íþróttaferlinum til að stofna fjölskyldu vegna skorts á stuðningi, takmörkunum á þátttökumöguleikum og hvernig fæðingarorlofi er háttað í ólíkum löndum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Puma.

„Það er erfitt að stofna til fjölskyldu þegar þú ert í atvinnumennsku. Ég vil sanna að þú getur snúið aftur eftir fæðingu og haldið áfram að spila meðal þeirra bestu,“ er haft eftir Söru Björk.

„Ég vona að ég veiti konum innblástur til að gera slíkt og sýni fram á að þú þarft ekki að velja milli þess að eiga fjölskyldu og vera í atvinnumennsku, að það eru fleiri valmöguleikar,“ segir Sara Björk.

„Íþróttakonum mæta margar áskoranir á ferlinum og meðganga getur verið ein af þeim,“ segir Matthias Baeumer, framkvæmdastjóri BU Teamsport.

„Þegar Sara kom til okkar og tilkynnti að hún væri ólétt vildum við styðja hana eftir bestu getu. Sara ákvað að þetta gæti verið frábært tækifæri til að gefa innsýn inn í vegferð hennar og til að sýna öðrum íþróttakonum að þær geta verið á toppi ferilsins og átt börn á sama tíma. Við erum ótrúlega spennt yfir því að Sara hefur beðið okkur um að taka þátt í þessu með henni og að hún kýs að deila þessari reynslu sinni í þeirri vona að styðja við íþróttakonur um heim allan.“