Utan vallar - Heimi heim

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu karla, leitar sér nú að nýjum samstarfsmanni. Stjórn sambandsins tók þá ákvörðun í síðustu viku að segja upp samningi sínum við Eið Smára Guðjohnsen sem hafði verið samstarfsmaður Arnars í eitt ár hjá landsliðinu

Mikið hefur gengið á í kringum landsliðið þetta ár sem þeir félagar voru saman í starfi og erfitt að segja til um hæfni þeirra sem þjálfara. Það er hins vegar ljóst að Arnar vantar þjálfara með talsvert mikla reynslu til að aðstoða sig í gegnum þá erfiðu tíma sem munu án nokkurs vafa halda áfram á næsta ári. Verið er að byggja upp nýtt landslið og alls óvíst hversu margar, ef einhverjar, af gömlu hetjum liðsins snúa aftur.

Þannig vill svo til að besti þjálfari í sögu íslenska landsliðsins er án vinnu, Heimir Hallgrímsson hefur ekki verið með þjálfarastarf síðasta hálfa árið. Eftir tvö og hálft ár í Katar ákvað Heimir að kveðja Al-Arabi og hefur síðan þá leitað sér að næsta starfi.

Knattspyrnusamband Íslands og Arnar Þór ættu án nokkurs vafa að leita til Heimis og reyna að fá hann til að þjálfa liðið með Arnari. Heimir þekkir það manna best að tveggja manna þjálfarateymi getur virkað með íslenska landsliðið. Heimir og Lars Lagerbäck þjálfuðu liðið saman þegar það komst inn á Evrópumótið árið 2016. Heimir tók síðan einn við keflinu í tvö ár og kom íslenska liðinu á Heimsmeistaramótið árið 2018.

Arnar gat ekki unnið með Lars Lagerbäck á þessu ári og var ákveðið að slíta samstarfinu, hann þarf hins vegar að átta sig á því að maður með reynslu gæti reynst honum happafengur nú þegar Eiður Smári er horfinn á braut.

Ég hef trú á því að Heimir og Arnar geti myndað gott teymi til að leiða íslenska liðið í gegnum þær breytingar sem eru að eiga sér stað. Heimir íhugaði að taka við Stjörnunni á dögunum en starfið hjá KSÍ gæti heillað hann. Mikilvægt er fyrir íslenska landsliðið að fá inn mann sem kann uppskriftina að árangri. Arnar og KSÍ, reynið að fá Heimi heim. ■