Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, gagnrýndi stjórn KSÍ þegar hann hélt ræðu á 73. ársþingi KSÍ í dag að sambandið skyldi ekki fordæma aðkomu utanaðkomandi aðila að formannskjörinu.

Jón Rúnar minntist ekki á nein nöfn en ljóst var að hann var að ræða um viðtal Aleksander Čeferin, forseta UEFA, við Sýn þar sem hann lýsti yfir stuðningi við Guðna Bergsson.

Geir Þorsteinsson, mótframbjóðandi Guðna, var afar gagnrýninn á afskipti Čeferin og virtist Jón Rúnar vera sammála honum.

„Ég var afar ósáttur að sjá að það skyldi utanaðkomandi aðili blanda sér í baráttuna um formannsstólinn. Ég beið í nokkra daga eftir því að fá útskýringu frá KSÍ eða að þetta yrði fordæmt en það kom aldrei,“ sagði Jón Rúnar og hélt áfram:

„Það er óásættanlegt að KSÍ skuli ekkert hafa aðhafst í þessu. Mér skildist að það gæti verið stuðningsyfirlýsing við annan hvorn og því var ekkert gert í þessu en Guðni Bergsson fékk tækifæri til að fordæma þetta í sjónvarpinu en gerði það ekki,“ sagði Jón Rúnar sem var ekki hættur:

„Það var heigulsháttur að samþykkja það að afskipti að utan séu samþykkt. Svo lengi sem ekkert er sagt er þetta samþykkt hegðun.“