Hörður Snævar Jónsson
Fimmtudagur 7. júlí 2022
10.00 GMT

Á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Lyngby stýrði Freyr Alexandersson danska liðinu upp úr næstefstu deild. Liðið spilaði vel undir stjórn Freys og tókst að komast upp í deild þeirra bestu. Svo mikil ánægja er með störf Freys hjá Lyngby að félagið gerði við hann nýjan og betri samning eftir tæpt ár í starfi. Stutt sumarfrí er í Danmörku og eftir mikinn fögnuð hefst úrvalsdeildin á næstu dögum.

„Þetta er nýtt fyrir mig að það séu svona stutt skil á milli þess sem var og er að hefjast. Ég hef fundið fyrir því, það var mikil gleði og gaman þegar við fórum upp. Það var allt undir síðustu vikurnar á mótinu og mikil spenna, skemmtileg spenna. Það var svo örstutt sumarfrí og svo höfum við þrjár vikur til að undirbúa okkur fyrir efstu deild,“ sagði Freyr í samtali við Fréttablaðið, en hann sat þá í mestu makindum heima hjá sér að horfa á fótbolta í sjónvarpinu.


Þetta er harmleikur og maður verður þess var að þetta hefur áhrif á þjóðina


Draumur á fyrsta ári

Freyr segir stökkið upp í úrvalsdeild stórt og viðbúið að hann muni ekki fagna eins mörgum sigrum og í næst­efstu deild. „Það er mjög stórt stökk á milli deilda, svo er enn meira stökk á milli efstu liðanna í úrvalsdeildinni og liðanna þar á eftir. Það eru mikil skil á milli liðanna í deildinni, það sést best á rekstri félaganna. Við erum á þeim stað að við erum ekkert að versla mikið á markaðnum. Það er mitt starf sem þjálfari að gera leikmennina betri og sækja svo leikmenn úr góðu unglingastarfi félagsins. Við höfum bætt við tveimur leikmönnum og spurning hvort þeir verði 1-2 í viðbót. Það þarf að vera á réttum forsendum og helst einhver með reynslu.“

Freyr stýrði Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina á síðasta tímabili
Fréttablaðið/GettyImages

Freyr tók við starfinu hjá Lyngby fyrir rúmu ári og nýtur sín í starfinu. „Þetta fyrsta tímabil var algjör draumur, í byrjun var ekki nein pressa á það að fara upp en þegar það gekk vel þá kom pressan og ég naut hennar. Ég þurfti að byggja upp nýtt lið og það gekk hraðar en við áttum von á. Það skemmtilegasta í starfi þjálfarans er að sjá leikmenn bæta sig og liðið verða betra, svo skemmir ekki að sigrar fylgi með í kjölfarið. Þetta hafa verið draumamánuðir fyrir mig persónulega.

Ég er klárlega búinn að bæta mig sem þjálfari, ég er umkringdur góðu fólki. Það var gott starfsfólk hér fyrir sem er frábært að vinna með. Fyrst og fremst er ég samt búinn að bæta mig sem leiðtogi, ég er miklu yfirvegaðri en áður. Það er bara reynsla sem maður hefur tekið frá Heimi Hall­grímssyni, Lagerbäck, Erik Ham­rén og fleirum,“ segir Freyr sem var lengi í starfi hjá KSÍ en stoppaði stutt í Katar áður en hann hélt til Danmerkur.

Fjölskyldan nýtur lífsins

Með því að skrifa undir nýjan samning við Lyngby er ljóst að Freyr og fjölskylda hans njóta lífsins í úthverfi Kaupmannahafnar. „Okkur líður vel, þetta er spennandi klúbbur að vinna fyrir. Þetta er frábær staður, við erum rétt fyrir utan miðbæ Kaupmannahafnar. Danskur fótboltakúltúr er frábær og þegar maður er kominn inn í hann reynir maður að sjúga allt í sig, það finnst mér spennandi. Ég vil ekki fara frá Danmörku nema að það komi eitthvað stórkostlegt. Klúbburinn vildi ró og ég vildi ró, það var því ekkert annað í stöðunni en að skrifa undir nýjan samning.“

Íbúar Danmerkur eru harmi slegnir eftir skotárás í verslunarmiðstöð í Kaupmannahöfn á sunnudag þar sem þrír létu lífið. „Það eru allir klárlega slegnir og maður finnur það, fólk talar mikið þetta. Þetta er hræðilegur atburður, allir þekkja einhvern sem var nálægt þessum stað á þessum tíma. Þetta er harmleikur og maður verður þess var að þetta hefur áhrif á þjóðina."

Fannst hann skulda Alfreð

Alfreð Finnbogason er án félags eftir að samningur hans við Augsburg í Þýskalandi rann út og æfir hann nú hjá Lyngby undir stjórn Freys. Ólíklegt er að Lyngby hafi þó efni á að semja við Alfreð.

„Ég hef ekkert rætt samning við Alfreð og hvort það sé einhver möguleiki. Ég held að það væri galið af mér að segja að ég hefði ekki áhuga á því að fá hann til liðs við okkur. Það er frábært að fá Alfreð á æfingasvæðið, hann er með geggjaða reynslu og er frábær manneskja. Alfreð gefur mikið af sér til aðila hérna, svo eru snertingar hans, leikskilningur og hvernig hann klárar færin allt í efsta klassa.

Alfreð Finnbogason

Ég vildi hjálpa honum, mér fannst ég skulda honum. Hann hefur að hluta til fórnað líkama sínum fyrir íslenska landsliðið. Hann spilaði meiddur og hægði á öllu bataferli sínu fyrir Ísland. Núna er hann á góðum stað og er að halda sér í toppstandi, það er gott að gefa karlinum eitthvað til baka. Við skoðum það að fá hann ef sú staða kemur upp.“.

Freyr seldi markvörð til Vals á dögunum en Frederik Schram sem var í HM-hópi Íslands árið 2018 er mættur í Bestu deildina. „Valur er að fá toppmarkvörð, það eina sem Frederik vantar er að fá traust og spiltíma. Hann átti að fá það hjá mér en handarbrotnaði og sá sem kom inn stóð sig frábærlega. Það var samkomulag um að hann gæti farið fyrir sanngjarna upphæð. Ég var hissa að sjá hann ekki byrja gegn KA en ég ræð því ekki. Frederik er frábær markvörður og eðal­drengur sem Valur fær í sitt félag,“ segir Freyr að lokum.

Athugasemdir