Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari ríkjandi Íslands- og bikarmeistara í Víkingi Reykjavík, framlengdi í gær dvöl sína hjá félaginu út tímabilið 2025. Víkingar hafa undanfarin ár klifraði upp metorðastigann í íslenskri knattspyrnu og nú berst félagið um titla.

Vegferð Arnars með liðið hefur hins vegar ekki alltaf verið dans á rósum.Það er á erfiðu tímunum sem hefur reynt á samstarf Víkinga við Arnar en þá hefur stjórn félagsins haft trú á þeirri vegferð sem hann er á með liðið, það hefur nú skilað sér í glæstum árangri.

„Það er ótrúlegt að finna fyrir þessu trausti,“ segir Arnar í samtali við Fréttablaðið eftir að hafa framlengt dvöl sína hjá Víkingi Reykjavík. „Stjórn félagsins á stóran þátt í þessari velgengni okkar. Þegar maður finnur þennan samhljóm í vinnunni sinni, og það er sama hvort það er í fótbolta, endurskoðun eða lögfræði, þá líður manni bara það vel að maður finnur enga ástæðu til að breyta til.“

Á fyrri hluta tíma Arnars með liðið reyndi virkilega á þolinmæði bæði stjórnar og stuðningsmanna en stjórn félagsins sýndi því skilning og hafði trú á hugmyndafræði þjálfarans.

„Ég hef alltaf sagt að það reyni aldrei á hugmyndafræði og leikkerfi þjálfarans fyrr en illa gengur, þá virkilega fara menn að hvísla. Þá þarf þjálfarinn að hafa tiltrú stjórnarinnar með sér og sem betur fer hafði ég það þegar illa gekk hjá okkur.“

Árangri fylgir athygli og Arnar segist hafa heyrt af áhuga annarra knattspyrnufélaga. „Það er bara hluti af þessum leik okkar. Þegar það gengur vel, hvort sem þú ert leikmaður eða þjálfari, þá er alltaf verið að tala um það hvað gæti gerst og tilboð fara að berast. Auðvitað hef ég metnað fyrir því að reyna fyrir mér erlendis en mér liggur bara ekkert á.

Ég er hjá félagi núna sem býður mér upp á að berjast um titla, hjálpa leikmönnum og þróa unga leikmenn. Það eru ekki mörg lið sem bjóða upp á það nema að það séu einhverjar óraunhæfar væntingar sem því fylgi. Á meðan svo er, þá er Víkin mjög góður staður til að vera á.“

Ítarleg viðtal við Arnar má sjá hér fyrir neðan: