Fyrr á þessu ári var ákveðið að setja á laggirnar golfakademíu í Fjölbrautaskóla Suðurlands en það er í fyrsta sinn sem slík akademía er sett á laggirnar fyrir efnilega íslenska kylfinga. Akademían er hluti af námsframboði FSu og er sú sjötta sem er í boði fyrir ungt íþróttafólk. Fyrir eru akademíur í fótbolta, handbolta, körfubolta, fimleikum og frjálsum íþróttum. Aðspurður segir Hlynur Geir Hjartarson, yfirþjálfari akademíunnar, að hugmyndin um golfakademíu hafi blundað í honum í nokkur ár.

„Þetta var búið að blunda í manni, ætli það séu ekki komin nokkur ár síðan ég ræddi þetta fyrst við FSu en þá kom aðstöðuleysi Golfklúbbs Selfoss í veg fyrir að eitthvað yrði úr þeim viðræðum. Það vantaði almennilega inniaðstöðu til að geta sinnt starfinu almennilega á veturna. Við fórum í framkvæmdir síðasta vetur, bættum við golfhermi og erum að bæta við öðrum. Í heildina stórbættum við aðstæðurnar til að æfa tæknina almennilega inni á veturnar þótt við reynum að halda áfram úti eins lengi og hægt er,“ segir Hlynur.

Hann segir metnaðinn fyrir íþróttum í sveitarfélaginu Árborg, sérstaklega hjá yngri Selfyssingum hafa aukist síðan fyrsta akademían var sett á laggirnar árið 2004.

„Það er mikill meðbyr í íþróttum á Selfossi þessa dagana. Metnaðurinn hjá unga fólkinu hefur stóraukist síðan fyrsta akademían var sett á laggirnar og nú eru þær orðnar sex. Metnaðurinn kom bersýnilega í ljós þegar Selfoss varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrra.“

Gerð er krafa um að kylfingarnir séu með lægri forgjöf en átján og fá þeir að kynnast öllum þáttum golfíþróttarinnar. Þar á meðal þurfa krakkarnir að sitja tíma þar sem farið er yfir hinar fjölbreytilegu golfreglur.

„Starfið er fjölbreytt. Það fara 2-3 tímar á viku í tækniæfingar en við leggjum líka mikla áherslu á liðleika og styrktaræfingar. Svo sitja þau sameiginlega fyrirlestra með öðrum akademíum í íþróttasálfræði og næringarfræði. Nú til dags skiptir þetta allt máli ef þú ætlar þér langt í golfi,“ segir Hlynur sem segir mikla ánægju ríkja með starfið í byrjun.

„Algjörlega. Krakkarnir eru bara eitt bros þegar þeir mæta á morgnana beint á golfæfingu og fá einingu fyrir að stunda sína íþrótt á skólatíma. Það eru eingöngu krakkar af svæðinu í náminu núna en það koma vonandi krakkar alls staðar að til okkar í golfakademíuna. Við erum enn að smíða þetta og þetta er að stórum hluta byggt á sömu hugmyndum og akademíurnar sem eru fyrir í FSu.“

Flestir af bestu kylfingum Íslands hafa farið til Bandaríkjanna og leikið með háskólaliðum í golfi eftir menntaskólann á Íslandi. Aðspurður hvort FSu geti reynst sem nokkurs konar brú á milli Íslands og bandaríska háskólagolfsins útilokar Hlynur ekki að það sé hægt að róa í sömu átt þegar komi að því að koma íslenskum kylfingum til Bandaríkjanna á skólastyrk sem kylfingum.

„Vonandi verður hægt að mynda einhverja leið. Ólafur Loftsson (PGA-kennari og aðstoðarmaður afreksstjóra GSÍ) hefur verið að aðstoða íslenska kylfinga við að komast að í bandarískum háskólum og það væri kannski hægt að skoða hvað stendur til boða,“ segir Hlynur.