Ótti margra á­huga­manna um For­múlu 1 varð að veru­leika á yfir­standandi tíma­bili eftir að nýtt reglu­verk mótaraðarinnar var tekið í noktun. Keppt er á nýrri kyn­slóð For­múlu 1 bíla á þessu tíma­bili og hefur bilið á milli liða reynst ansi mikið.

Á meðan sum lið virðast hafa náð að nýta sér reglu­verkið og hitt naglann á höfuðið hafa önnur lið verið að berjast í bökkum sínum. Stefa­no Do­meni­cali, fram­kvæmda­stjóri For­múlu 1 hefur hins vegar ekki á­hyggjur af stöðu mála þrátt fyrir að lið eins og Ferrari og Red Bull Ra­cing hafi verið í sér­flokki á yfir­standandi tíma­bili.

Lítil bar­átta er um fyrsta sætið bæði í stiga­keppni öku­manna sem og bíla­smiða þar sem Red Bull Ra­cing með Max Ver­stappen í farar­broddi hafa ráðið lögum og lofum á tíma­bilinu.

„Það er alveg klárt að við fáum ekki sömu bar­áttu og á síðasta tíma­bili þegar að úr­slit stiga­keppninnar réðust í loka­keppni tíma­bilsins," sagði Do­meni­cali í við­tali við ítalska fjöl­miðla.

„En þrátt fyrir það er upp­selt á allar eftir­standandi keppnis­helgar tíma­bilsins og hvað frammi­stöður og bilin milli liða varðar tel ég að það geti verið brúað mjög fljótt."

Meðal þess sem tekið var í notkun fyrir yfir­standandi tíma­bil í For­múlu 1 er meðal annars kostnaðar­þak sem liðin mega ekki rjúfa.

„Ég tel að á næstu árum, mun nýja reglu­verkið verða til þess að bilið milli liða frá toppunum til restarinnar muni minnka."