Knattspyrnumaðurinn Daníel Leó Grétarsson gekk til liðs við enska C-deildarliðið Blackpool í byrjun október síðastliðnum og hefur hann fest sig í sessi í hjarta varnarinnar hjá liðinu síðan hann kom þangað.

Daníel Leó var í eldlínunni þegar Blackpool lagði WBA að velli í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu karla um síðustu helgi, en hann fór meiddur af velli í framlengingu leiksins. Hann tognaði aftan í læri og verður því frá næstu vikurnar og missir því líklegast af leiknum gegn úrvalsdeildarliði Brighton í næstu umferð bikarkeppninnar.

Blackpool er, þegar mótið er tæplega hálfnað, í 13. sæti C-deildarinnar en liðið er einungis sex stigum frá sæti sem gefur sæti í umspili um að fara upp um deild. Grindvíkingurinn segir að lífið í borginni hafi verið fínt innan vallar en það hafi hins vegar verið erfitt að flytja til Englands í miðjum heimsfaraldri.

„Það var mjög sérstakt að flytja til Englands við þær takmarkanir sem voru í gangi vegna kórónaveirufaraldursins og það hefur verið erfitt fyrir okkur fjölskylduna að koma okkur fyrir hérna með lítið barn á meðan útgöngubann hefur verið í landinu. Innan vallar hefur hins vegar gengið vel, ég hef spilað mikið og fundið fyrir miklu trausti frá þjálfaranum sem er bara mjög jákvætt,“ segir Daníel Leó í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er hins vegar allt öðruvísi bolti en ég vandist þegar ég spilaði með Álasundi í Noregi. Þar var ég vanur að þurfa að díla við snögga framherja sem vilja fá boltann með jörðinni í svæðið fyrir aftan vörnina. Hérna eru þeir mikið fyrir að hengja einn háan og langan á stóra og stæðilega framherja þannig að ég þarf að vera öflugur í návígi í loftinu og niðri á jörðinni í kjölfarið. Það er bara fínt að bæta við vopnabúrið í varnarleiknum og ég kann vel við að spila hérna,“ segir þessi 25 ára gamli varnarmaður.

Daníel segir að það hafi verið draumur að komast að á Englandi og segist strax vera búinn að bæta leik sinn í vetur.

„Við erum með fínt lið miðað við þessa deild en það sem er kannski óvanalegt miðað við það sem ég er vanur er hversu stór leikmannahópur er hjá liðinu. Það eru tæplega 30 leikmenn í hópnum sem allir gera tilkall til þess að vera í liðinu á leikdegi og í hverjum leik eru átta til tíu leikmenn utan hóps sem gætu hæglega verið í byrjunarliði. Það er hins vegar spilað þétt hérna og svo höfum við verið að missa leikmenn í meiðsli og í smit á kórónaveirunni þannig að það er gott að hafa stóran hóp í þessari baráttu,“ segir hann um Blackpool-liðið.

Tók tíma að venjast hörkunni

„Ég hef verið ánægður með spilamennsku mína hingað til og ég hef verið í liðinu lungann af þeim leikjum sem við höfum spilað síðan ég kom hingað. Ég var hvíldur í einum leik þar sem það hafði verið mikið leikjaálag. Það tók mig vissulega tíma að venjast því að spila svona líkamlega krefjandi fótbolta og að það séu tveir leikir í viku. Það er hins vegar allt að koma og ég er búinn að læra mörg trix í ensku bókinni sem þeir nota óspart í leikjum.

Það var alltaf stefnan að spila einhvern tímann á Englandi, þó að mig hafi vissulega dreymt um að spila í sterkari deild hérna. Vonandi tekst okkur að koma okkur upp um deild á þeim tíma sem ég er hérna. Ég gerði tveggja ára samning þegar ég kom hingað, með möguleika á eins árs framlengingu að þeim tíma loknum. Mér líður vel hérna og sé fram á klára þann samningstíma. Maður veit hins vegar aldrei hvað gerist í boltanum,“ segir hann um fyrstu mánuðina í enska boltanum og framhaldið.

Daníel Leó spilaði sinn fyrsta A-landsleik þegar Ísland vann Kanada í vináttulandsleik fyrir tæpu ári síðan. Hann vonast til þess að frammistaða hans með Blackpool nái að heilla Arnar Þór Viðarsson og Eið Smára Guðjohnsen, nýráðna þjálfara íslenska landsliðsins, í komandi verkefnum liðsins.

„Eftir að hafa fengið smjörþefinn af því að spila fyrir A-landsliðið á síðasta ári þá vona ég auðvitað að ég fái kallið í hópinn í komandi verkefnum liðsins. Það eina sem ég get gert er að halda áfram að spila vel fyrir Blackpool og vona að ég geti lagt landsliðinu lið. Það væri frábært að fá tækifæri til þess að vera í landsliðshópnum í komandi verkefnum,“ segir Daníel Leó sem hefur spilað sjö deildarleiki og tvo bikarleiki fyrir Blackpool á leiktíðinni.