Afleitur sóknarleikur varð íslenska karlalandsliðinu í handbolta að falli er liðið tapaði í gærkvöldi sínum fyrsta leik eftir vonbrigðin sem liðið upplifði á HM. Andstæðingur gærkvöldsins var Tékkland í undankeppni EM, Tékkarnir voru sterkari og unnu að lokum fimm marka sigur 22-17.
Eftir leik voru málin rædd í EM stofunni á RÚV þar sem að fyrrum atvinnu- og landsliðsmennirnir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Logi Geirsson sátu í hlutverki sérfræðinga. Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona RÚV stýrði þættinum.
„Ég man ekki eftir annarri eins hörmung í fljótu bragði,“ ´sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, fyrrum landsliðsmaður og bætti við:
„Ábyrgðin liggur hjá liðinu í heild. Ég held samt að aðallega sé um að ræða andleysi hjá leikmönnum. Að mæta og skilja eftir sig svona frammistöðu, þetta er bara fyrir neðan allar hellur.
Þeir héldu að þeir væru að fara verða heimsmeistarar núna í janúar. Skora síðan tíu mörk í fyrri hálfleik í kvöld, þá hélt maður nú að botninum væri náð, en nei þá skora þeir sjö mörk í seinni hálfleik. Það er eins og gólfið í þeirra frammistöðu sé ekki til.“
Úrslitin komi á óvart miðað við gæðin sem búi í liðinu.
„Þeir sem einstaklingar hafa klárlega bullandi sjálfstraust því margir þeirra eru að spila mjög vel með sínum félagsliðum. Þeir sem heild, þeir sem lið, hafa ekkert sjálfstraust. Það vantar einhvern stoppara í þetta hjá þeim þar sem þeir einhvern veginn ná að trekkja sig í gang.“
Logi Geirsson, fyrrum landsliðsmaður, tók í svipaðan streng.
„Ég hélt ég hefði séð allt í þessu en í dag sá ég algjört afhroð. Sóknarlega, að vera búnir að skora tvö mörk eftir tuttugu mínútur í seinni hálfleik sem, og að sjá holninguna og andann í liðinu. Það var eiginlega bara ótrúlegt að sjá þetta.
Ég ætla ekki að fara kenna neinu vanmati um þessi úrslit en innstillingin í þennan leik. Í þessi tíu ár sem ég hef setið hérna í þessu setti, ég hef aldrei séð lélegri leik hjá landsliðinu.
Það er eitthvað að, það sýnir sig.“
Ísland og Tékkland mætast öðru sinni í Laugardalshöll á sunnudaginn kemur.