Ef tekið er dæmi um það hversu marga leiki Englandsmeistarar Manchester City spiluðu í öllum keppnum á síðasta tímabili voru þeir 61 talsins.

Oftar en ekki getur álagið á leikmönnum liða verið þannig að þeir eru að spila þrjá leiki í viku.

,,Þetta er ekki verksmiðja sem framleiðir skó," sagði Molango í þættinum Football Focus á vegum BBC. ,,Við erum að tala um atvinnumenn í knattspyrnu og stundum fæ ég þá tilfinningu að við séum að fara enn meir í þá átt að líta á þessa leikmenn sem vélar frekar en manneskjur."

Bæði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchster City og Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafa tjáð sig um nánast ómanneskjulegt álag sem leikmenn séu undir.

Molango, sem er framkvæmdarstjóri samtaka atvinnumanna í knattspyrnu, vill sjá hámark vera sett á það hversu marga leiki leikmaður má spila á tímabili til þess að reyna koma í veg fyrir að hann brenni út.

Þá þykir honum það skjóta skökku við að leikmennirnir séu oftast þeir sem sjái leikjadagskrá tímabilsins síðast. ,,Það er sett saman dagskrá og svo er þeim sagt að fara út að spila. Þeir eru þeir sem þurfa að mæta til leiks og standa fyrir skemmtuninni, við ættum að spyrja okkur hversu marga leiki leikmaður getur í raun og veru spilað á tímabili."