Liverpool hyggst virkja klásúlu í samningi króatíska varnarmannsins Dejan Lovren og framlengja samning hans við félagið til sumarsins árið 2022. Lovren á ár eftir af núverandi samningi sínum en ákvæði er í honum um að Liverpool geti framlengt samning Lovren verði hann ekki seldur frá félaginu í sumar.

Króatíski landsliðsmaðurinn hefur leikið 185 leiki fyrir Liverpool en hann hefur fallið aftar í goggunarröðinni hjá Jürgen Klopp á yfirstandandi leiktíð. Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joël Matip hafa verið á undan honum í liðsvalinu.

Fregnir herma að Zenit hafi áhuga á hinum 31 árs gamla varnarmanni sem segist ætla að vera þolinmóður áfram í herbúðum Liverpool og framhaldið komi svo í ljós.