Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hefur sett af stað rannsókn sem miðar að því að finna stuðningsmann félagsins sem hljóp inn á völlinn er Liverpool tók á móti erkifjendum sínum í Manchester United á Anfield í gær.

Það er Sky Sports sem greinir frá en umræddur stuðningsmaður hljóp inn á völlinn í þann mund sem Liverpool skoraði sitt sjöunda mark í leiknum.

Stuðningsmaðurinn, sem ekki hefur verið borið kennsl á, hljóp í áttina að leikmönnum Liverpool sem voru í miðjum fagnaðarlátum. Í þann mund sem hann nálgaðist leikmennina, féll hann við og lenti á Andy Robertson, bakverði liðsins sem lá í kjölfarið óvígur eftir.

Öryggisverðir náðu að handsama manninn en einhverra hluta vegna virðist ekki vera ljóst á þessari stundu hver hann er. Er öryggisverðirnir fylgdu honum af vellinum, fóru þeir með hann fram hjá Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool sem var allt annað en sáttur með athæfi mannsins og hrópaði nokkur vel varin orð að honum.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan: