Fyrsta skrefið í átt að stækkun Anfield, heimavallar Liverpool, verður tekið í næstu viku og er vonast til þess að framkvæmdunum ljúki á næstu tveimur árum.

Fyrr á þessu ári samþykktu borgaryfirvöld í Liverpool beiðni félagsins um að stækka Anfield Road stúkuna.

Að framkvæmdunum loknum mun völlurinn taka rúmlega 61 þúsund manns í sæti og verða þriðji stærsti völlur ensku úrvalsdeildarinnar á eftir heimavöllum Manchester United og Tottenham.

Verður ný stúka byggð ofan á neðri hluta stúkunnar sem er fyrir og fær stúkan um leið andlitslyftingu. Framkvæmdir munu standa yfir allan ársins hring næstu tvö ár.

Vonast er til að stúkan verði tilbúin fyrir fyrsta leik tímabilsins um haustið 2023 og að með þessu geti félagið boðið upp á fjögur hundruð störf á leikdegi til viðbótar við þá 2200 einstaklinga sem vinna á leikjum félagsins í dag.