Stuðnings­menn New­cast­le héldu sann­kallaða þjóð­há­tíð fyrir utan St. James’s Park þegar kaupin voru til­kynnt, enda hefur fé­lagið verið hálf von­laust síðan 2004. Nú er fé­lagið það ríkasta í heimi og öll vötn renna til New­cast­le.

Stuðnings­menn liðsins láta sig dreyma um titla hér og titla þar, leik­menn sem minna á fyrr­verandi liðs­menn sem skemmtu á­horf­endum og voru kallaðir the En­terta­iners. Það munaði litlu tíma­bilið 1995-1996 að fé­lagið yrði meistari, en því var klúðrað á eftir­minni­legan hátt. Liðið var tólf stigum á undan Manchester United í janúar, en þá fór allt í skrúfuna. Alan Shear­er snéri svo heim tíma­bilið eftir fyrir 15 milljónir punda – og varð þar með dýrasti leik­maður heims. Heiðurs­maðurinn Sir Bobby Rob­son stýrði liðinu inn í Meistara­deildina og það var gaman að fara á leiki með New­cast­le.

Mike Ashley kom svo sem eig­andi fyrir 14 árum og hefur stýrt fé­laginu með ó­trú­legum hætti og var trú­lega ó­vin­sælasti eig­andi liðs á Eng­landi. Það þykir hálf­gert af­rek að vera ó­vin­sælli en Glazi­er-fjöl­skyldan, eig­andi Manchester United.

Peningar ekki vanda­mál

Fjár­festarnir arabísku þurftu að sanna fyrir ensku úr­vals­deildinni að hópurinn væri að­skilinn ríkis­stjórninni, sem er frekar erfitt, enda Mohammed Bin Sal­man krón­prins skráður stjórnar­for­maður hópsins. For­svars­menn ensku úr­vals­deildarinnar sam­þykktu þó nýjar skýringar á eignar­haldi hópsins.

„Ef þeir hefðu vilja kaupa ensku úr­vals­deildina eins og hún leggur sig þá hefði það verið ekkert mál. Peningar eru ekkert vanda­mál. Núll,“ sagði Björn Berg Gunnars­son deildar­stjóri greiningar­deildar Ís­lands­banka í þætti Hjör­vars Haf­liða­sonar Dr. Foot­ball.

Það þarf þó að byggja fé­lagið upp og æfinga­svæðið. Það mun taka tíma. Sjóðurinn segist þó vera að hugsa langt fram í tímann en hvort það sé bara í orði en ekki á borði mun tíminn leiða í ljós.

Tómas Þór Þórðarson.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Peningar og fót­bolti fara vel saman

„Þegar horft er á hina ein­földu stað­reynd að nýir eig­endur New­cast­le eru ríf­lega tíu sinnum ríkari en eig­endur Man. City er auð­velt að halda að það sé næsta stór­veldi Evrópu. Peningar og fót­bolti fara vel saman en það er ekki þannig að New­cast­le geti ein­fald­lega keypt alla leik­menn heims.

Fjár­hags­reglur FIFA, eins mikið grín og þær geta verið, munu svo sannar­lega setja Sá­dunum stólinn fyrir dyrnar ætli þeir fram úr sér. Lykil­­at­riðið er í raun ekki leik­menn eða þjálfari til að byrja með, heldur að finna aðilann sem mótar fram­tíðar­stefnuna eins og Txiki Begiristain hefur gert hjá Man. City. Takist það verður New­cast­le í fremstu röð um ó­komna tíð með sinn botn­lausa peninga­brunn,“ segir Tómas Þór Þórðarson.

Elvar Geir Magnús­son.
Mynd/Aðsend

Árangur strax, takk

„Þegar krón­prinsinn í Sádí-Arabíu kaupir fót­bolta­fé­lag þá er mark­miðið alveg skýrt. Þeir ætla að búa til stór­veldi og það á ógnar­hraða. Ég sé þessa menn ekki sýna þolin­mæði og fara í mark­vissa upp­byggingu. Árangur strax, takk.

Gríðar­legar ó­vin­sældir Mike Ashley gera það að verkum að flestir stuðnings­menn New­cast­le ráða sér ekki fyrir kæti, en í augum annarra verður þetta lið „vondu kallarnir“ eftir mann­réttinda­brot nýrra eig­enda sem eru á snærum ríkis­stjórnar Sádí-Arabíu. En eitt­hvað segir mér að í norðrinu sé mönnum eigin­lega slétt sama. Þeir eru alveg til í að lyfta bikurum og vera hataðir um leið,“ segir Elvar Geir Magnús­son.