„Ég var að fá seinni skammtinn af bóluefni í vikunni. Hér í Bandaríkjunum er hægt að skrá sig í bólusetningu og þetta er mikill léttir. Að smitast af veirunni hefði raskað verulega undirbúningnum fyrir Ólympíuleikana og nú get ég strokað þær áhyggjur út,“ segir Anton Sveinn McKee sundkappi, léttur í lund, aðspurður hvernig undirbúningnum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó sé háttað þessa dagana.

Rétt rúmir tveir mánuðir eru í að Ólympíuleikarnir eigi að hefjast í Japan eftir að þeim var frestað í fyrra vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Anton hefur því þurft að bíða lengi eftir sínum þriðju Ólympíuleikum en hann segist vera á nokkuð góðum stað líkamlega.

„Undirbúningurinn gengur vel, hef náð að æfa mjög vel og keppti í fyrsta sinn í langan tíma hérna í Bandaríkjunum á dögunum. Tíminn minn þar var mjög góður og ég var að ná upp svipuðum hraða og þegar ég er upp á mitt besta. Ég myndi því segja að ég væri á góðum stað miðað við hvað ég hef lítið keppt að undanförnu,“ segir Anton sem verður skiljanlega var við umræðu um að leikunum verði frestað á ný eða jafnvel aflýst vegna neyðarástands í Japan. Aðspurður segist hann lítið velta sér upp úr þeirri umræðu.

„Auðvitað er skrýtið að fylgjast með þessari umfjöllun. Maður heyrir fréttir af því að heimamenn vilji margir aflýsa leikunum en Alþjóðaólympíusambandið heldur því staðfast fram að leikarnir muni fara fram. Ég hef reynt að einangra mig frá þessari umræðu enda get ég lítið sem ekkert annað gert. Fyrir vikið einbeiti ég mér að hlutum sem ég get stjórnað. Líkamlega er ég í frábæru formi en ég hef verið að vinna í andlegu hliðinni undanfarið,“ segir Anton sem missti föður sinn undir lok síðasta árs.

„Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir, andlega, eftir fráfall föður míns undir lok síðasta árs. Hann bjó til íþróttamanninn sem býr inni í manni og var alltaf til staðar. Það hefur verið erfiðara að keppa, vitandi að hann er ekki til staðar. Hann verður mér í hjartastað í Tókýó.“

Anton ákvað að taka ekki þátt í Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug sem fer fram í Búdapest þessa dagana og einblína þess í stað á undirbúninginn fyrir þéttsetna dagskrá á seinni hluta ársins.

„Þetta var ákvörðun sem ég tók í samstarfi við Sundsamband Íslands. Evrópumótið er frábært mót en það hentaði ekki á þessum tímapunkti. Ég var staðsettur í Bandaríkjunum og ekki fullbólusettur. Það hefði því þurft að fara mikill tími í sóttkví, ferðalög og slíkt sem hefði komið niður á mikilvægum æfingatíma. Ég komst í mót í Bandaríkjunum hér sem var jákvætt til að finna þessa keppnistilfinningu á ný, “ segir Anton sem keppir annað árið í röð fyrir hönd Toronto Titans í liðakeppni næsta haust.

„Samkvæmt áætlunum á tímabilið í atvinnumannadeildinni að hefjast mánuði eftir Ólympíuleikana og halda áfram inn í haustið. Þannig að öll mín stærstu mót eru á seinni hluta ársins og svo auðvitað EM í 25 metra laug.“

Ummæli Antons á samfélagsmiðlum í vikunni um undanþáguna sem Eurovision-hópurinn fékk til að komast í bólusetningu vöktu mikla athygli en hann segir að það hafi verið gagnrýni á að afreksíþróttafólk hafi ekki fengið sömu undanþágu.

„Ég var ekki að setja út á það að Eurovision-hópurinn fengi bólusetningu,“ segir Anton hlæjandi og heldur áfram: „Þetta voru nokkurs konar vangaveltur um það afhverju afreksíþróttafólk fengi ekki sömu undanþágu ef það átti að veita undanþágu. Líkt og í Eurovision er oft margra ára undirbúningur að baki fyrir Ólympíuleikana. Það eru því miður dæmi um að íslenskir keppendur veikist af kórónaveirunni og missi af mikilvægum mótum og undirbúningi. Svo eru aðrir sem eru að ferðast um Evrópu að keppa í von um að ná lágmörkum. Allt þetta fólk er að reyna að fá að koma fram fyrir Íslands hönd og komast á ÓL. Það hefði verið gott fyrir þau að vera búin að fá bóluefni og þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessu.“