Annie Mist Þórisdóttir er mjög ánægð með að Crossfit sé orðið hluti af glæsilegri dagskrá Reykjavíkurleikanna en keppt verður í greininni í fyrsta skipti á leikunum í þetta skiptið. Keppt verður bæði í keppni yngri iðkenda á mótinu sem og í Mastersflokki. Annie Mist, sem er mikil keppnismanneskja, hefur stóra drauma fyrir Crossfit-hluta leikanna í framtíðinni.

„Það er mjög ánægjulegt að Crossfit hafi bæst við í þessa glæsilegu leika. Ég er mjög spennt fyrir því að sjá bæði keppnina í Masters-flokknum sem og unga og upprennandi Crossfitara etja kappi. Það eru tæplega 100 keppendur í Masters-flokknum og keppnin er sterk. Hingað eru að koma öflugir erlendir keppendur og það verður fróðlegt að sjá hvar íslensku keppendurnir standa í samanburði við þá,“ segir Annie Mist um komandi keppni en hún getur ekki keppt á mótinu að þessu sinni.

„Ég er búin að reka hálfgerða ferðaskrifstofu undanfarnar vikur en erlendu keppendurnir sem eru að koma hingað ætla að nota tækifærið og skoða landið. Ég er búin að fá svo mikið af fyrirspurnum að ég bjó til staðlað svar við því hvað væri nauðsynlegt að sjá á Íslandi.

Ég er meira að segja búin að búa til mismunandi svör eftir því hversu lengi fólk verður hér. Ég held að það séu mikil tækifæri til að stækka mótið á næstu árum,“ segir hún enn fremur.

„Minn draumur er að þetta verði fyrsta stóra mótið í Crossfitinu á hverju ári og myndi bætast við flóruna í Crossfitinu hér heima.“
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Minn draumur er að þetta verði fyrsta stóra mótið í Crossfitinu á hverju ári og myndi bætast við flóruna í Crossfitinu hér heima. Reykjavík Crossfit Championship fer fram í apríl og er búið að festa sig í sessi sem eitt af stóru mótunum á hverju ári. Þetta mót getur hæglega bæst við það á mótadagskránni.

Reykjavíkurleikarnir fara fram á hentugum tíma hvað það varðar að laða sterka keppendur til landsins. Það er óraunhæft að hafa stórt og fjölmennt mót yfir sumarið þar sem bestu keppendurnir eru að hugsa um Heimsleikana og mót sem koma þér þangað inn á þeim tíma. Ég fann fyrir virkilega miklum áhuga hjá erlendum Crossfiturum á að koma hingað til Íslands þrátt fyrir að það sé hávetur. Laugardalshöllin hentar vel fyrir Crossfit-keppni í hæsta gæðaflokki,“ segir þessi metnaðarfulla afrekskona.

Skrýtið að vera kominn til Dubai

Annie Mist hefur sjálf tryggt sér sæti á Heimsleikunum en hún gerði það óvenjulega snemma að þessu sinni. Hún segir það skrýtna en jafnframt góða tilfinningu að farseðillinn til Dubai sé í höfn á þessum tímapunkti. Það sé þægilegt að geta stýrt álaginu og vera ekki með pressu á öxlunum fyrri hluta árs.

„Það var mikill léttir þegar ég tryggði mér þátttökuréttinn á Heimsleikunum en á sama tíma er það mjög skrýtið að vera að skipuleggja árið án þess að vera að pæla hvar ég næli mér í sæti á mótinu. Ég er þannig gerð að mér líður best undir pressu en nú reynir á mig að stilla æfinga- og mótaplanið þannig að ég haldi mér á tánum og toppi á réttum tíma,“ segir Annie Mist um keppnisárið sem fram undan er.

„Þegar ég var að velja mér mót til þess að fara á var ánægjulegt að geta gert það áhyggjulaus. Ég er í góðu formi eins og staðan er núna og er mjög spennt fyrir þeim verkefnum sem ég er að fara í. Mér finnst geggjað að byrja árið á að hitta afreksíþróttafólk, bæði í Crossfitinu, og öðrum íþróttagreinum. Reykjavíkurleikarnir eru frábær byrjun á árinu. Ég mun sinna bæði pepphlutverki og aðstoða við utanumhaldið í Crossfit-keppninni og þess á milli bregð ég mér í starf leiðsögumanns um þá flottu staði sem Ísland hefur upp á að bjóða,“ segir hún.