Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handbolta, er á sínu fyrsta heila keppnistímabili sem atvinnumaður en hann leikur með þýska stórliðinu Rhein-Neckar Löwen. Ýmir Örn gekk til liðs við Löwen frá Val á miðri síðustu leiktíð en fljótlega eftir að hann kom til Þýskalands var tímabilinu hætt vegna kórónaveirufaraldursins.

„Þetta var auðvitað töluvert stökk frá því að spila heima með Val og fara að spila í þýsku efstu deildinni. Viðbrigðin voru vissulega mikil og ég fann það alveg strax að það var margt sem ég gat bætt. Ég græddi hins vegar mikið á að fá alþjóðlega reynslu með landsliðinu og það hjálpaði mér mikið,“ segir Ýmir Örn um fyrstu mánuðina hjá nýju liði.

„Ég ákvað það í samráði við Snorra Stein Guðjónsson og Óskar Bjarna Óskarsson að sleppa milliskrefinu. Snorri Steinn var reyndar búinn að ráðleggja mér að sleppa svo mörgum tilboðum að ég hélt að hann væri bara að nota þetta til að halda mér lengur. En þeir hjálpuðu mér mikið og eftir á að hyggja var þetta hárrétt skref,“ segir hann.

„Það tók tíma að venjast því hvernig varnarleik liðið spilar og ég var ekki alveg öruggur með að stýra vörninni á þýsku til að byrja með. Á þessari leiktíð finnst mér ég hins vegar hafa bætt leikskilninginn töluvert og þýskan er öll að koma til. Það er líka gott að finna fyrir því hversu mikið traust ég fæ hjá jafn stóru liði og Löwen og það veitir mér mikið sjálfstraust.

Ég byrja alla leiki í varnarleiknum en skipti svo í uppstilltum sóknarleik. Ég kann mjög vel við mig hérna og sé fram á að vera hérna næstu árin,“ segir þessi öflugi varnarmaður.

„Gengið hjá liðinu hefur hins vegar ekki verið eins gott og ætlast er til af félagi af þeirri stærðargráðu sem Löwen er. Það helgast að einhverju leyti af því að við höfum verið óheppnir með meiðsli og heilt yfir hafa um það bil fjórir til fimm leikmenn verið frá vegna meiðsla. Markmiðið er að gera betur á næsta tímabili,“ segir Ýmir en Löwen situr í öðru sæti þýsku efstu deildarinnar.

Löwen hefur hins vegar leikið fimm leikjum fleiri en liðin í sætunum í kring. Þá er liðið komið í átta liða úrslit EHF-keppninnar þar sem liðið laut í lægra haldi fyrir rússneska liðinu Chekhovskie medvedi í Rússlandi með eins marks mun í fyrri leik liðanna á þriðjudaginn var. Liðin mætast svo aftur í Þýskalandi á þriðjudaginn kemur.