Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir Kýpur í undankeppni HM 2023 á AEK Arena í Larnaca klukkan 17:00 að íslenskum tíma í dag.

Þetta er fjórði leikur Íslands í undankeppninni og sá síðasti á þessu ári. Fyrir leikinn situr íslenska liðið í öðru sæti riðilsins með sex stig eftir þrjá leiki.

Holland, sem er á toppi riðilsins með 11 stig eftir fimm leiki gerði jafntefli við Tékkland í leik liðanna á laugardaginn. Þar af leiðandi hefur Ísland tapað fæstum stigum í riðlinum.

Íslenska liðið mætir til leiks með mikið sjálfstraust eftir 2-0 sigur gegn sterku liði Japans í vináttulandsleik liðanna á fimmtudagskvöldið síðastliðið. Þar skoraði Sveindís Jane Jónsdóttir fyrra mark íslenska liðsins og Sveindís Jane lagði svo upp mark Berglind Bjargar Þorvaldsdóttur.

Ísland og Kýpur mættust í fyrri viðureign sinni í riðlinum á Laugardalsvelli í lok október. Þeim leik lyktaði með sannfærandi 5-0 sigri Íslands. Sveindís Jane skoraði tvö marka Íslands í þeim leik og Dagný Brynjarsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir sitt markið hver.

Besta frammistaðan undir stjórn Þorsteins

Sveindís Jane og Dagný eru markahæstar í liði Íslands í undankeppninni með tvö mörk hvor. Auk Karólínar Leu og Alexöndru hafa svo Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir komist á blað.

Berglind Björg vill svo sjálf meina að hún hafi opnað markareikning í undankeppninni en dómari í leik Íslands gegn Tékklandi er henni ekki sammála og skráði það sem sjálfsmark.

Þorsteinn Hreiðar Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, sagði á blaðamannafundi í gær að allir leikmenn liðsins væru klárir í komandi verkefni en mikil samkeppni er um stöður hjá liðinu þessa stundina.

Þá var spilamennska Íslands í sigrinum gegn Japan líklega sú besta á árinu og allir leikmenn sem spiluðu í þeim leik stóðu sig afar vel, bæði þeir sem byrjuðu og komu inná af varamannabekknum. Því er erfitt að spá í spilin varðandi það hvaða leikmenn hljóta náð fyrir augum Þorsteins í byrjunarliðinu síðdegis í dag.

Líklegt byrjunarlið Íslands lítur hins vegar svona út: Cecilia Rán Rúnarsdóttir - Hallbera Guðný Gísladóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Elísa Viðarsdóttir - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir - Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir.