Lög­reglu­stjóri í Indónesíu, á­samt níu öðrum hátt settum starfs­mönnum innan lög­reglunnar þar í landi hefur verið sagt upp störfum eftir hroða­legan at­burð þar í landi þar sem að minnsta kosti 125 létu lífið í ó­eirðum og troðningi eftir knatt­spyrnu­leik. The Guar­dian greinir frá. Þá séu á­tján lög­reglu­menn undir rann­sókn eftir að tára­gasi var skotið inn í mann­mergðina.

Við­brögð lög­reglu­yfir­valda í tengslum við um­ræddan leik sæta mikilli gagn­rýni, þau hafi skapað meiri ó­reiðu fremur en að ná stjórn á að­stæðum.

Nýjustu tölur herma að um 125 ein­staklingar hafi látið lífið í tengslum við ó­eirðirnar í leik Arema FC og Per­sebaya Sura­ba­ya um ný­liðna helgi sem endaði með tapi heima­liðsins Arema. Á­kveðinn hópur stuðnings­manna Arema brást ó­kvæða við tapinu og hélt inn á knatt­spyrnu­völlinn sjálfan en vitni sem ræddu við The Guar­dian segja lög­regluna ekki að­eins hafa skotið tára­gasi í áttina að þeim ein­stak­lingum heldur einnig upp í á­horf­enda­stúkuna.

Það hafi leitt til frekari múg­æsings þegar fólk reyndi að komast út af leik­vanginum. Fjölda­margir urðu undir fólks­fjöldanum við út­ganginn og köfnuðu. Engar við­varanir hafi verið gefnar af hálfu lög­reglunnar.

Öryggisreglugerðir Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) harðbanna noktun táragass inn á knattspyrnuleikvöngum.

„Knatt­spyrnu­á­huga­fólk í Indónesíu kvartar yfir því að augu fjöl­miðla víðs vegar um heim eigi það til að ein­blína á nei­kvæðar sögur sem berast frá leikjum í landinu frekar en að kafa dýpra í knatt­spyrnu menninguna. Öll sem hafa farið á knatt­spyrnu­leik í Indónesíu geta borið vitni um að það getur verið frá­bær upp­lifun en líka ógnandi," skrifar John Duer­d­en í pistli á vef The Guar­dian.

John segir þetta til að mynda hafa orðið til þess að á­flog milli stuðnings­manna beggja liða hafi orðið kveikjan að at­burða­rásinni sem fór af stað.

„Það hefði ekki verið í fyrsta skiptið sem slíkt hefði gerst en í þessu til­viki var ein­göngu að finna stuðnings­menn Arema Malang þar sem stuðnings­menn Per­sebaya Sura­ba­ya voru ekki leyfðir á leik­vanginum þar sem koma átti í veg fyrir mögu­leg átök."

Indónesía sé land þar sem of­beldi komi oft til sögunnar í tengslum við knatt­spyrnu­leiki. Talið er að um 74 dauðs­föll hafi átt sér stað á árunum 1994 til 2019.

„Yfir­völd í Indónesíu hafa átt í erfið­leikum með að eiga við þetta. Þá hjálpar getu­leysið við að takast á við svona at­burði, spillingin og stjórn­leysið, ekki til."