Handboltamaðurinn Haukur Þrastarson sem nýverið gekk til liðs við pólska liðið Kielce fór fyrir tveimur vikum síðan í aðgerð vegna álagsbrots sem hann varð fyrir í ristinni.

Þetta kemur fram í samtali hans við visi.is. Haukur segist búast við því að vera fjarri góðu gamni næstu þrjá mánuðina vegna þeirra meiðsla.

Landsliðsmaðurinn er með pinna í ristinni en hann er nýkominn út til Póllands þar sem hann er að koma sér fyrir. Þessi öflugi leikstjórnandi gerði þriggja ára samning við Kielce síðasta vor.

Hann varð Íslandsmeistari með Selfossi vorið 2018 og á síðasta keppnistímabili varð hinn 19 ára leikmaður bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður efstu deildarinnar í handbolta á Íslandi.