Frjálsíþróttamaðurinn Haukur Gunnarsson var í kvöld tekinn inn í Heiðurshöll íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, en hann er 20. íþróttamaðurinn til þess að vera tekinn inn í Heiðurshöllina.

Haukur fæddist með hreyfihömlun en það uppgötvaðist ekki fyrr en hann var orðinn þriggja ára. Hann æfði fótbolta fram að fermingu en þurfti þá að leggja skóna á hilluna. Í kjölfarið fór hann að stunda frjálsar íþróttum með frábærum árangri.

Haukur Gunnarsson braut blað í sögu íslenskra frjálsíþróttamanna þegar hann vann gullverðlaun fyrir 100 metra hlaup á Ólympíumóti fatlaðra í Seúl í Suður-Kóreu haustið 1988.

Haukur hljóp á 12,88 sekúndum í úrslitahlaupinu og vann tvenn bronsverðlaun til viðbótar á sama Ólympíumóti, en alls keppti Haukur fyrir Íslands hönd á fjórum Ólympíumótum fatlaðra og vann til sex Ólympíuverðlauna í frjálsum íþróttum.

Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við Hall of Fame á erlendri grundu. Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar.

Í tilefni 100 ára afmælis ÍSÍ samþykkti framkvæmdastjórn ÍSÍ að setja á stofn Heiðurshöll ÍSÍ. Með Heiðurshöll ÍSÍ vill ÍSÍ skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum.