Óðinn Þór Ríkharðsson og Haukur Þrastarson voru kallaðir inn í leikmannahóp íslenska landsliðsins fyrir leikinn gegn Frakklandi í stað Arons Pálmarssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar sem meiddust í gær

Aron meiddist þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leik Íslands og Þýskalands og greindi frá því í samtali við Rúv eftir leik að hann hefði fundið til í náranum. Fyrir vikið kom hann ekkert meira við sögu.

Í seinni hálfleik fór Arnór að kveinka sér og sagði hann í samtali við Rúv að hann hefði fundið til aftan í læri. 

Þar sem Ísland mætir ríkjandi heimsmeisturum Frakklands síðar í dag var ákveðið að kalla inn Óðin Þór fyrir Arnór og Hauk fyrir Aron.

Haukur var sautjándi maður í leikmannahópnum og hefur því æft með liðinu undanfarna daga í Þýskalandi.

Óðinn fór með liðinu til Noregs og tók þátt í æfingarmóti í aðdraganda HM og þekkir því vel til leikmannahóps Íslands.