Haukur Þrastarson, leikmaður pólska liðsins Kielce og íslenska karlalandsliðsins í handbolta, er með slitið krossband. Það er handbolti.is sem greinir frá þessu.

Þetta kom í ljós í segulómum sem Haukur undirgekkst í dag en áður hafði læknateymi pólska félagsins gefið út að Haukur hafi skaddað krossband sitt en ekki slitið það.

Haukur gekk til liðs við Kielce frá Selfossi í sumar en hann varð fyrir meiðslunum í leik með pólska liðinu í Meistaradeild Evrópu.

Fram undan er tæpt ár í endurhæfingu og mun hann þar af leiðandi ekki leika með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Egyptalandi í janúar næstkomandi.