Selfyssingurinn Haukur Þrastarson er að ná fyrri kröftum eftir að hafa slitið krossband fyrir rúmu ári síðan en Haukur var valinn í úrvalslið fimmtu umferðar í pólsku deildinni í handbolta.

Haukur sem gekk til liðs við pólska stórveldið Kielce síðasta sumar meiddist í leik félagsins í Meistaradeild Evrópu þann 1. október í fyrra. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að hann væri með slitið krossband.

Hinn tvítugi Haukur hefur verið að fá stærra hlutverk undanfarnar vikur og skoraði hann níu mörk í 45-29 sigri Kielce á Chrobry Glagów um helgina.

Hann var verðlaunaður með sæti í liði umferðarinnar.

Hann er því á góðum stað í aðdraganda þátttöku Íslands á Evrópumótinu 2022 sem fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar næstkomandi.

Haukur gat ekki tekið þátt á HM í Egyptalandi fyrr á þessu ári en hann hefur farið á tvö stórmót með íslenska landsliðinu.