„Þegar ég kom hingað var rætt um það að ég fengi að nýta fjölhæfni mína betur í sóknarleiknum. Þannig er ég mikið að koma af hindrunum og skjóta og sækja á körfuna eftir hindranir. Ég er að spila sem hávaxinn þristur og ég fæ líka að spila með bakið í körfuna sem fjarki og ég er að fíla það hlutverk mjög vel.

Ég fæ mun meira frjálsræði til þess að nýta mína styrkleika en hjá Unics Kazan og það var forsenda þess að ég kom hingað,“ segir Haukur Helgi Briem Pálsson í samtali við Fréttablaðið um fyrstu mánuðina hjá MoraBanc Andorra sem leikur í spænsku efstu deildinni í körfubolta karla.

„Ég var kominn með leið á því að spila hjá liðum þar sem ég var hræddur við að gera mistök eða það mátti alls ekki fara því leikplani sem sett var upp. Það gilda auðvitað ákveðnar vinnureglur hérna en það er mun betur tekið á því að leikmenn finni sjálfir leiðir til þess að sækja á körfuna eða finna sér góð skot,“ segir Haukur Helgi enn fremur um vinnuumhverfið hjá nýja liðinu sínu en hann hefur skorað rúmlega 11 stig af meðaltali í þeim fimm deildarleikjum sem hann hefur spilað með liðinu í vetur.

„Þetta er lið sem mun koma til með að berjast um að koma sér í úrslitakeppnina. Barca og Real Madrid eru á pappírnum sterkust og þar fyrir neðan eru tvö til þrjú lið. Svo verðum við í pakka með fimm til sex liðum sem munu berjast um að enda í topp átta og komast í úrslitakeppnina.

Þetta tímbil verður samt örugglega mjög skrýtið út af COVID. Bæði út af frestunum á leikjum og svo munu meiðsli líklega hafa mikil áhrif á það hvernig liðum mun ganga,“ segir Haukur Helgi sem tiltörulega nýkominn aftur af stað eftir að hafa glímt við meiðsli sjálfur en hann reif vöðva aftan í læri.

MoraBanc Andorra er sem stendur í 11. sæti spænsku efstu deildarinnar með þrjá sigra og fjögur töp. Auk þess leikur liðið í Evrópubikarnum á yfirstandandi leiktíð. Á þriðjudagskvöldið síðastliðið skoraði Haukur Helgi níu stig þegar liðið lagði Lietkabelis að velli í þeirri keppni. Þar ofan á tók hann sjö fráköst og stal tveim­ur bolt­um. MoraBanc Andorra er í fjórða sæti af sex liðum í C-riðli með tvo sigra og þrjú töp.