Haukur Helgi Briem Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur samið við spænska körfuboltafélagið Andorra ACB sem leikur í spænsku efstu deildinni. Þetta staðfesti Haukur Helgi í samtali við Fréttablaðið í dag.

Haukur Helgi sem er 28 ára gamall var án samnings eftir að hafa samið var um starfslok hans hjá rússneska félaginu Unics Kazan eftir tæplega ársdvöl í Rússlandi.

Andorra ACB hafnaði í sjötta sæti spænsku efstu deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð og hafnaði svo í fimmta sæti í sínum riðli í úrslitakeppni deildarinnar sem haldinn var með óhefðbundnu sniði vegna kórónaveirufaraldursins. Þá komst liðið í undanúrslit spænsku bikarkeppninnar auk þess að leika í Euro Cup.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Haukur Helgi leikur fyrir spænskt félag en hann var áður á mála hjá Manresa frá 2013 til 2014 annars vegar og svo aftur árið 2015 og Breogán frá 2014 til 2015 og Baskonia árið 2015.