Lovísa Björt Henningsdóttir skrifaði í hádeginu í dag undir samning við körfuboltadeild Hauka og mun leika með liðinu næsta vetur. Lovísa Björt hefur spilað undanfarin ár við góðan orðstír með bandaríska háskólaliðinu Marist en hún útskrifaðist þaðan á dögunum.

Lovísa gerir eins árs samning við Hauka en auk hennar hafa lykilleikmenn liðsins framlengt samninga sína. Það eru þær Þóra Kristín Jónsdóttir, Magdalena Gísladóttir. Eva Margrét Kristjánsdóttir, Rósa Björk Pétursdóttir, Bríet Lilja Sigurðardóttir og Sigrún Björg Ólafsdóttir. Þær gera allar tveggja ára samning.

Einnig mun Ólöf Helga Pálsdóttir stýra liðinu næsta vetur en hún framlengdi samning sinn við Hauka um eitt ár.

Á dögunum gekk Auður Íris Ólafsdóttir til lið við Hauka og gerði tveggja ára samning. Ásamt því mun hollenski landsliðsmaðurinn Janine Guijt sem lék með liðinu seinni hluta síðasta tímabils koma aftur næsta tímabil.