Haukakonur ætla ekkert að slá af í baráttunni um eitt af sætunum í úrslitakeppninni en Haukar komust aftur á beinu brautina í kvöld með 80-73 sigri á Keflavík á heimavelli.

Með öflugum varnarleik í þriðja leikhluta náðu Hafnfirðingar fjórtán stiga forskoti sem Keflavík tókst ekki að ógna. Með sigrinum náðu Haukar að saxa á forskot Keflvíkinga niður í tvö stig.

KR nýtti sér tap Keflvíkinga og er komið með tveggja stiga forskot í öðru sæti deildarinnar eftir 79-60 sigur á Breiðablik í kvöld. KR tók snemma frumkvæðið og hélt Blikaliðinu í öruggri fjarlægð í seinni hálfleik.

Skallagrímur vann þriðja leik sinn í síðustu fjórum umferðum og er áfram í fjórða sæti deildarinnar eftir 58-55 sigur á Grindavík þar sem varnarleikurinn var í fyrirrúmi.

Þá fór Valsliðið langt með að klára leikinn strax á upphafsmínútunum í 93-54 sigri á Snæfelli í kvöld. Valskonur leiddu 29-5 eftir fyrsta leikhluta og leikurinn svo gott sem búinn.