Austurríkismaðurinn Ralph Hasenhüttl hefur skrifað undir fjögurra ára samning við enska knattspyrnufélagið Southampton en Hassenhüttl hefur stýrt karlaliði félagsins frá því í desember árið 2018. Samningurinn gildir til ársins 2024.

Þessi 52 ára gamli Austurríkismaður hefur haldið um stjórnartaumana hjá liðinu í 16 mánuði en hann tók við liðinu af Mark Hughes í desember árið 2018.

Sæti Hasenhüttl var heitt eftir að Southampton var rassskellt af Leicester City á heimavelli sínum, St Mary's, með níu mörkum gegn engu í október.

Síðan þá hefur hann siglt skútunni aftur á réttan kjöl en Southampton situr í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 34 stig og er sjö stigum frá fallsæti þegar níu umferðir eru eftir af deildinni.