Enska ungstirnið Harvey Elliott, sem leikur mðe Liverpool varð fyrir alvarlegum ökklameiðslum í leik liðsins gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta karla í gær.

Elliott var fluttur á sjúkrahús eftir tæklingu Pascal Struijk, leikmanns Leeds United. Þegar á spítalann var komið lá Elliott við hliðina á ungum fótboltastrák sem hafði handleggsbrotnað í leik fyrr um daginn.

Til þess að hressa unga strákinn við gaf Elliott honum treyjuna sem hann var í þegar hann spilaði við Leeds United og annan skóinn sinn.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan var strákurinn himinlifandi með gjöfina.

Liverpool sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram að Elliott hefði meiðst illa á ökkla en ekki væri ljóst hversu lengi hann yrði frá vegna þeirra meiðsla.

Elliott, sem er 18 ára gamall, hefur farið vel af stað með Liverpool á leiktíðinni. Hann mun undirgangast aðgerð í dag og eftir það mun endurhæfing hefjast.