Íslenska þjálfarateymið, með Heimi Hallgrímsson fremstan í flokki sem stýrir liði Al Arabi í Katar, var hársbreidd frá því að vinna fimmta leikinn í röð í Qatar Stars League í gærkvöldi, en vítaspyrna á lokamínútu leiksins kom í veg fyrir það. Með því kom Al Gharafa í veg fyrir að Heimir yrði fyrsti þjálfari Al Arabi til að stýra sínu liði til sigurs í fimm deildarleikjum í röð í rúm fimmtán ár.

Í aðdraganda bikarúrslitanna var rætt um að staða Heimis væri í hættu í Doha, enda var Al Arabi skyndilega í fallbaráttu með sex stig úr níu leikjum. Síðan þá hefur Al Arabi fengið þrettán stig af fimmtán úr fimm leikjum. Það er jafn-besti árangur liðs í deildinni í síðustu fimm leikjum með Al Sadd undir stjórn Xavi.

Þetta var í fjórða skiptið síðan í desember árið 2005 sem Al Arabi var búið að vinna fjóra leiki í röð en líkt og áður mistókst að vinna fimmta leikinn. Þá hefur Al Arabi á sama tíma sjö sinnum unnið þrjá leiki í röð í deildarkeppninni. Á þessum fimmtán árum hefur Al Arabi leikið 365 leiki í röð án þess að vinna fimm leiki í röð.

Ásamt Heimi og Aroni eru Freyr Alexandersson og Bjarki Már Ólafsson hjá Al Arabi, en Freyr og Bjarki eru hluti af starfsteymi Heimis í Katar. Heimir hefur sjálfur starfað í Katar í rúm tvö ár.