Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings af skemmtanahaldi Rey Cup, en í dag var greint frá bréfi sem þjálfarar 4. flokks Breiðabliks sendu til foreldra í dag.
Í bréfinu sem foreldrar stúlknanna fengu var mælt með því að leikmenn á yngra ári fjórða flokks myndu ekki fara á ball og í sundlaugapartý sem haldið er í tengslum við alþjóðlega knattspyrnumótið Rey Cup sem hefst í Reykjavík á morgun.
„Þarna eru saman komin krakkar á mjög mismunandi aldurstigum (okkar stelpur á yngsta aldurstiginu) og frá sitthvorum menningarheimum. Rey Cup setur þetta upp eins og grunnskólaball sem er haldið fyrir börn í 8-10 bekk en þegar þú ert með leikmenn sem koma frá mörgum mismunandi menningarheimum þá finnst okkur ekki hægt að bera þessa tvo hluti saman,“ segir meðal annars í bréfinu til foreldra.
Í tilkynningunni kemur fram að knattspyrnudeild Breiðabliks harmi það orðaval sem kemur fram í bréfinu til foreldra og segja að það endurspegli á engan hátt stefnur félagsins.
Þá er einnig tekið fram að iðkendum sé ekki bannað að sækja skemmtanir á Rey Cup, en benda á að það hefur tíðkast að félagið bendi foreldrum á að börnin séu á ábyrgð foreldra.
Tilkynninguna í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.
„Að gefnu tilefni vill knattspyrnudeild Breiðabliks koma á framfæri eftirfarandi skilaboðum er varðar fréttaflutning af skemmtanahaldi Rey Cup.
Knattspyrnudeild Breiðabliks harmar það orðaval sem fram kemur í umræðunni og endurspeglar það á engan hátt stefnur félagsins.
Enn fremur skal tekið fram að knattspyrnudeild Breiðabliks bannar ekki iðkendum að sækja skemmtanir á annars glæsilegu knattspyrnumóti Þróttar, Rey Cup.
Hins vegar tíðkast sá siður að félagið bendi foreldrum sinna iðkenda á að börnin séu á ábyrgð foreldra sinna þegar slíkar skemmtanir eru sóttar.“