Stjórn körfuknattleiksdeildar Sindra harmar og fordæmir kynþáttafordóma og annars konar mismunun í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í kvöld. Fyrr í kvöld var greint frá því að leikmaður Hamars, sem keppti við Sindra í Höfn, hafi ítrekað verið áreittur á leiknum í gær.

Sindri biður leikmanninn, þá sérstaklega Kinu Rochford, afsökunar og segja að málið verði tekið föstum tökum innan félagsins. Yfirlýsingin var fyrst birt á karfan.is

Í yfirlýsingu félagsins segir að slíkt athæfi sé í algerri andstöðu við stefnu deildarinnar sem og Ungmennafélagsins Sindra í heild.

„Við viljum biðja leikmenn Hamars, félagið í heild sinni,  og þá sérstaklega Kinu Rockford afsökunnar á þeirri hegðun sem var viðhöfð. Málið verður tekið föstum tökum og er í skoðun innan félagsins í samstarfi við KKÍ en formaður KKÍ og varaformaður voru í stúkunni á umræddum leik.“

Viðkomandi aðili settur í bann

Til að tryggja að slíkar aðstæður komi ekki aftur upp ætlar félagið að rannsaka málið og verður viðeigandi aðilum meinaður aðgangur að leikjum félagsins í framtíðinni. Þá verður gæsla aukin á leikjum og þannig vonast til þess að hægt verði að grípa inn í um leið komi slíkt aftur upp.

Þá verður leitað eftir samstarfi milli UMF Sindra, skóla- og félagsmálayfirvalda og farið inn í skóla sveitarfélagsins með fræðslu um málefnið

„Það er von stjórnar Körfuknattleiksdeildar Sindra að með þessu verði komið í veg fyrir að aðstæður sem þessar komi upp aftur og að leikmenn geti þannig spilað leiki án þess að eiga í hættu á að verða fyrir fordómum eða mismunun af einhverju tagi,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

Yfirlýsing frá Körfuknattleiksdeildar Sindra vegna kynþáttafordóma í heild sinni

Stjórn körfuknattleiksdeildar Sindra harmar og fordæmir með öllu kynþáttafordóma eða hvers kyns mismunun. Slíkt er í algjörri andstöðu við stefnu deildarinnar sem og Ungmennafélagsins Sindra í heild.

Við viljum biðja leikmenn Hamars, félagið í heild sinni,  og þá sérstaklega Kinu Rockford afsökunnar á þeirri hegðun sem var viðhöfð. Málið verður tekið föstum tökum og er í skoðun innan félagsins í samstarfi við KKÍ en formaður KKÍ og varaformaður voru í stúkunni á umræddum leik.

Farið verður í eftirfarandi aðgerðir í kjölfar málsins til að tryggja að aðstæður sem þessar komi ekki upp aftur

  • Unnið verður að rannsókn málsins og viðeigandi aðilum bannaður frekari aðgangur að leikjum félagsins
  • Gæsla verður aukin á leikjum deildarinnar og þar með er vonast til að hægt sé að grípa strax inn í aðstæður af þessum toga ef þær koma upp
  • Leitað verður eftir samstarfi milli UMF Sindra, skóla- og félagsmálayfirvalda og farið inn í skóla sveitarfélagsins með fræðslu um málefnið

Það er von stjórnar Körfuknattleiksdeildar Sindra að með þessu verði komið í veg fyrir að aðstæður sem þessar komi upp aftur og að leikmenn geti þannig spilað leiki án þess að eiga í hættu á að verða fyrir fordómum eða mismunun af einhverju tagi.

Virðingarfyllst

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Sindra