Hörður frá Ísafirði er á sínu fyrsta tímabili í efstu deild karla í handbolta. Þó svo að tímabilið hafi farið erfiðlega af stað hjá Ísfirðingum láta þeir ekki deigann síga og láta gott af sér utan vallar.

Félagið hefur látið framleiða bleika treyju í samstarfi við Bleiku slaufuna og Krabbameinsfélagið Sigurvon og mun allur ágóði af sölu treyjunnar renna beint til Bleiku slaufunnar og Krabbameinsfélagsins Sigurvon.

Fyrir leik ÍR og Harðar í Breiðholti í gær mátti sjá treyjuna en leikmenn Harðar hituðu upp í henni fyrir leikinn.

Harðverjar hafa tapað öllum sínum leikjum í deildinni hingað til en vonir standa til innan félagsins að lukkan fari að snúast þeim í hag.