ÍA hefur níu sinnum orðið bikarmeistari karla, en Víkingur R. tvisvar sinnum. Víkingur R. eru ríkjandi bikarmeistarar karla.

Víkingar eru ríkjandi bikarmeistarar en liðið vann titilinn árið 2019. Ekki var leikið til þrauta í bikarnum á síðasta ári vegna kórónuveirunnar. Víkingar urðu svo Íslandsmeistarar á dögunum.

Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen kveðja sviðið eftir leikinn í dag. Þessir fyrrum landsliðsmenn í knattspyrnu ætla að hætta að iðka íþróttina eftir leikinn.

Kári kveður í dag

Haraldur Haraldsson framkvæmdarstjóri Víkings er spenntur fyrir deginum og skrifar. „Risadagur framundan hjá okkur Víkingum. Úrslitaleikur Mjólkurbikarinn gegn ÍA á Laugardalsvelli kl 15:00. Að þessu sinni snýst leikurinn ekki um sæti í Evrópu og mikla peninga fyrir Víking. Hann snýst um heiðurinn og sögulegt afrek," skrifar Haraldur á Twitter í dag.

Haraldur segir daginn snúast um að kveðja kóngana með sigri. „Dagurinn snýst um að kveðja kóngana Kára Árna og Sölva Ottesen með glæsileika. Hann snýst um að verja bikarinn. Hann snýst um að vinna bikarinn 50 árum eftir að hann vannst fyrst. Hann snýst um að vinna tvennuna í Íslenskri knattspyrnu - í fyrsta sinn í sögu Víkings.“

„Hann snýst um stuðningsmennina sem ætla að gefa allt í leikinn, sem aldrei fyrr. Hann snýst um sögu Víkings til allrar framtíðar.“