Haraldur Björnsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við karlalið Stjörnunnar í knattspyrnu. Haraldur gekk til liðs við Stjörnuna frá norska liðinu Lilleström árið 2017.

Á þeim tíma sem Haraldur hefur spilað hjá Stjörnunni varð hann bikarmeistari sumarið 2018 í fyrsta skipti í sögu félagsins og svo meistari meistaranna nú í vor.

Orðrómur var um það að Stjörnumenn ætluðu að leita annað í markmannsmálum fyrir næsta keppnistímabil og var nafn Ingvars Jónssonar fyrrverandi leikmanns Garðabæjarliðsins þar nefnt til sögunnar.

Nú hafa Garðbæingar hins vegar staðfest að félagið ætli að treysta Haraldi áfram til þess að verja mark liðsins en nýr samningur hans gildir til ársins 2022.