Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, lenti í tíunda sæti á Emporda Challenge mótinu í golfi á Áskorendamótaröðinni sem fór fram um helgina.

Haraldur lék manna best á þriðja degi mótsins um helgina þegar hann kom í hús á sjö höggum undir pari.

Árangurinn um helgina skaut Haraldi upp í 46. sæti stigalista Áskorendamótaraðar Evrópu en efstu 45. kylfingarnir í lok tímabilsins komast á lokamótið þar sem keppendur geta unnið sér inn þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Með góðum árangri í næsta móti sem hefst á morgun kemst Haraldur því á lokamótið. Endi hann meðal tuttugu efstu ætti hann að komast á mótið.

Það yrði annað árið í röð sem Ísland ætti fulltrúa á mótinu en Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék á því í fyrra.

Með árangri helgarinnar náði Haraldur að komast yfir fimm milljónir íslenskra króna í verðlaunafé það sem af er tímabils fyrir lokamótin tvö.

GR-ingurinn hefur heilt yfir unnið sér inn 35.869 evrur sem er um 5,4 milljónir íslenskra króna.