„Það er ofboðslega margt sem gerir Graham Potter að frábærum knattspyrnustjóra. Hann er sífellt að vinna á bak við tjöldin í öllum þáttum leiksins og greinir allt í þaula, hvort sem um ræðir æfingar liðsins, leiki eða andstæðinga sína,“ segir Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, aðspurður hvað gerir nýjasta þjálfara Chelsea að knattspyrnustjóra í fremstu röð.

Það var staðfest í dag að Potter væri næsti knattspyrnustjóri Chelsea og tekur hann við keflinu af Thomasi Tuchel.

Haraldur er eini Íslendingurinn sem hefur leikið undir stjórn Potters en þeir unnu saman hjá sænska félaginu Östersund.

„Hann er með gráðu í mannauðsfræðum ef ég man rétt og mjög góður í samskiptum sem mun eflaust reynast honum vel núna. Það er erfiðara að vinna með leikmönnum þegar þú ert kominn á þetta stig og pressan verður allt önnur. Þótt að það sé auðvitað pressa hjá Brighton þá er pressa hjá Chelsea að vinna titla.“

Aðspurður segist Haraldur ekki hafa séð fyrir sér að Potter yrði kominn jafn fljótt til Chelsea og raun bar vitni en þeir unnu saman hjá Östersund fyrir sex árum.

„Kannski ekki Chelsea, en maður sá það strax að það var heilmikið í hann spunnið,“ segir Haraldur léttur og segist fylgjast vandlega með árangri fyrrum þjálfara síns.

Hann segir um leið að Evrópuævintýri Östersund sé gott dæmi um hæfileika Potters á þessu sviði.

„Ég spila undir hans stjórn í tvö ár, frá 2014 til 2016. Einu ári síðar verða þeir bikarmeistara og hefja Evrópuævintýri þar sem þeir slá út lið eins og Galatasaray og PAOK á leið sinni í riðlakeppninni. Þeir fara svo upp úr riðli með Athletic Bilbao og Hertu Berlín.“

Markvörðurinn segir hugrekki Potters vera einn af helstu kostum.

„Það gerir hann um um leið góðan knattspyrnustjóra hvað hann óhræddur í sínum aðgerðum og frjálslegur í leikaðferðum. Hann breytir oft um leikkerfi eftir andstæðingunum og uppleggi þeirra. Hann var alltaf að prófa nýja hluti. “

Um leið hafi Potter verið duglegur að benda á hvað mætti betur fara og fylgdist vandlega með öllum þáttum leiksins.

„Á þessum tíma sem við vorum saman vorum lið flest ekki komnir með þessar myndavélar sem taka upp allan völlinn. Hann var þá alltaf með eigin búnað sem tók upp allan leikinn, svo að hann gæti séð allan völlinn þar sem það voru atvik sem sjónvarpsútsendingar misstu af,“ segir Haraldur og bætir við að hann hafi lagt áherslu á að bæta sig með hverjum degi.

„Eftir hvern leik var hann og greiningarteymið að skoða leikinn bara undir eins. Það var alltaf markmiðið að gera betur en daginn í gær. “