Haraldur Franklín Magnús er í fyrsta ráshóp á fyrsta móti ársins á Áskorendamótaröð Evrópu en síðar um daginn fer Guðmundur Ágúst Kristjánsson af stað á sama móti.

Um er að ræða Limpopo mótið sem fer fram á Euphoria-golfsvæðinu fyrir norðan Jóhannesborg. Þetta er í fyrsta sinn sem mót á Áskorendamótaröðinni fer fram í Suður-Afríku og fyrsta af þremur sem fer fram í landinu á næstu dögum.

GR-ingarnir eru að hefja sitt fyrsta heila tímabil á mótaröðinni eftir að hafa unnið sér þátttökurétt í gegnum skandinavísku mótaröðina á síðasta ári.

Haraldur er í fyrsta ráshóp klukkan 6:30 í fyrramálið að staðartíma og er í ráshóp með Timon Baltl frá Austurríki og heimamanninum Ryan Tipping.

Guðmundur Ágúst sem komst inn á mótaröðina síðasta sumar og tók þátt í nokkrum mótum undir lok síðasta tímabils fær að sofa út og hefur leik 10:20.

Með Guðmundi í ráshóp er heimamaðurinn Louis Albertse og Tékkinn Stanislav Matus.